Doktorsnám á Menntavísindasviði

4.jpg


Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla ÍslandsViðmið og kröfur um gæði doktorsnáms
við Háskóla Íslands

Endurskoðað skjal, lagt fyrir háskólaþing 18. apríl 2012

1. Inngangur
Háskóli Íslands hefur heimild mennta- og menningarmálaráðherra til að bjóða doktorsnám á öllum fræðasviðum sínum, skv. lögum um háskóla nr. 63/2006 og reglum um doktorsnám í háskólum nr. 37/2007. Var heimildin veitt að undangenginni faglegri úttekt erlendra sérfræðinga á árunum 2008 og 2009.
Við Háskóla Íslands er lögð rík áhersla á að tryggja að doktorsnámið sé í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar kröfur. Árið 2004 samþykktu háskólafundur og háskólaráð formleg Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands og voru þau endurskoðuð árið 2012. Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands var sett á laggirnar árið 2009 með það hlutverk að tryggja og efla gæði doktorsnáms við skólann og fylgja eftir settum viðmiðum og kröfum, sbr. 66. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 [viðauki 1].
2. Skipulag doktorsnáms
Fræðasvið og deildir háskólans skipuleggja og bera faglega ábyrgð á doktorsnámi við skólann, efni þess, uppbyggingu og framkvæmd. Samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 setur háskólaráð almennar reglur um doktorsnám og um vörn doktorsritgerða. Þessar almennu reglur eru í VI. kafla reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Þar kemur fram að fræðasviðum og deildum Háskólans er heimilt að skipuleggja doktorsnám í samræmi við þann ramma sem þar er settur. Nánari ákvæði um framhaldsnám eru í sérreglum fræðasviða og deilda um slíkt nám sem staðfestar eru af háskólaráði. Lærdómstitlar sem veittir eru við námslok eru tíundaðir í 55. gr. sameiginlegu reglnanna.
3. Gæði doktorsnáms, tengsl við lög og reglur
Í framangreindum lögum og reglum er fjallað ítarlega um ýmis formskilyrði doktorsnáms, s.s. um aðgang að doktorsnámi, doktorsnefndir, umsóknarfrest, meðferð umsókna, einingafjölda, tímalengd og samsetningu náms, tengsl meistara- og doktorsnáms, umsjónarkennara og leiðbeinanda, kröfur til þeirra sem leggja mat á námið og lokaverkefnið, prófdómara og andmælendur, námsmat, skil og frágang lokaverkefna, tengsl við aðra háskóla og lærdómstitla. Lögin og reglurnar mynda formlega umgjörð um doktorsnámið en hér er kveðið sérstaklega á um viðmið og kröfur um gæði námsins, s.s. hvaða kröfur eru gerðar til leiðbeinenda, fræðasviða, deildaog námsleiða. Aðgreiningin á milli laga og reglna annars vegar og viðmiða og krafna um gæði hins vegar er þó ekki í öllum tilvikum skýr. Þannig taka lögin, og sérstaklega reglurnar, að nokkru leyti til gæða námsins og eftirfarandi viðmið og kröfur um gæði fela í sér ítarlegri útfærsla á reglunum.

4. Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms
Þessi viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms eru hluti af formlegu gæðakerfi Háskóla Íslands. Lögð er áhersla á að þau séu sambærileg við það sem tíðkast í þeim erlendu háskólum sem Háskóli Íslands ber sig saman við.
Hér á eftir er gerður greinarmunur á almennum, faglegum og efnislegum viðmiðum og kröfum.
•    Almennu viðmiðin eru rammi sem vísar til alþjóðlega viðurkenndra forsenda um gæði doktorsnáms.
•    Faglegu viðmiðin tilgreina lágmarkskröfur um menntun, leiðbeiningarreynslu og rannsóknavirkni leiðbeinenda og doktorsnefnda.
•    Efnislegu viðmiðin fela í sér lágmarkskröfur um námsaðstöðu doktorsnema.
4.1 Almenn viðmið
•    Markmið og hæfniviðmið doktorsnáms.  Markmið doktorsnáms við Háskóla Íslands er að veita doktorsnemum þá þekkingu og færni sem nauðsynleg er til að þeir geti stundað sjálfstætt vísindalegar rannsóknir, aflað nýrrar þekkingar og gegnt margvíslegum störfum á innlendum og erlendum vettvangi sem krefjast hæfni til að beita vísindalegum aðferðum. Hæfniviðmiðum doktorsnámsins (e. learning outcomes) er nánar lýst í viðmiðum um æðri menntun og prófgráður sem gefin eru út af mennta- og menningarmálaráðherra [viðauki 2.].
•    Gegnsætt inntökuferli.  Leitast skal við að laða að doktorsnámi við Háskóla Íslands þá nemendur sem eru líklegastir til þess að taka frumkvæði í rannsóknum. Val á doktorsnemum fer fram á grundvelli faglegrar hæfni, jafnréttis og sanngirni. Almennt skal vera ljóst til hvers ætlast er af nemendum sem skrá sig í doktorsnám við Háskóla Íslands. Til doktorsnema skulu gerðar kröfur um virka þátttöku í því vísindasamfélagi sem þeir hafa gerst aðilar að.
•    Námssamningur og fjármögnun.  Í upphafi náms skal gerður námssamningur þar sem kveðið er á um gagnkvæmar skyldur og réttindi doktorsnema, leiðbeinanda, doktorsnefndar og Miðstöðvar framhaldsnáms f.h. Háskóla Íslands. Í námssamningi skal m.a. koma fram raunhæf áætlun um fjármögnun og framvindu doktorsnámsins, ákvæði um birtingarétt, námsaðstöðu og önnur gögn og gæði, s.s. tilraunaaðstöðu, sem er nauðsynleg vegna námsins [viðauki 3].
•    Árleg námsframvinduskýrsla.  Doktorsnemi skal árlega skila til viðkomandi deildar/fræðasviðs námsframvinduskýrslu sem staðfest er af leiðbeinanda. Deildir/fræðasvið skila afriti af henni til Miðstöðvar framhaldsnáms. Í skýrslunni skal m.a. gerð grein fyrir framvindu doktorsverkefnisins, einingum (ECTS) sem lokið er, fundum doktorsnema og leiðbeinanda, birtum ritverkum, þátttöku í ráðstefnum, kennslustörfum, fjármögnun námsins og áætluðum námslokum [viðauki 4].
•    Námstími. Doktorsnám að loknu meistaranámi er 180–240 einingar (ECTS). Miðað við full námsafköst er námstími í doktorsnámi því 3–4 ár. Hámarkstími til að ljúka doktorsgráðu skal að jafnaði vera 5–6 ár.
•    Skráning eininga. Doktorsnefnd og leiðbeinandi skulu gæta þess að skráning eininga í nemendakerfi (Uglu) sé í samræmi við raunverulega framvindu námsins.
•    Rannsóknarumhverfi. Doktorsnámið skal fara fram í virku rannsóknarumhverfi í hópi viðurkenndra vísindamanna á eða í nánum tengslum við slíkan hóp. Til að styrkja alþjóðlega skírskotun doktorsnámsins er æskilegt að doktorsnemar taki hluta af námi sínu og/eða að námið fari fram í samstarfi við viðurkenndan erlendan rannsóknaháskóla.
•    Alþjóðleg reynsla. Doktorsnemar skulu hafa tækifæri til að fylgjast með þróun og tileinka sér nýjungar og skiptast á upplýsingum og þekkingu við aðra doktorsnema og vísindamenn, m.a. með því að þeim sé auðveldað eftir föngum að dvelja hluta námstímans við erlenda háskóla eða rannsóknastofnanir og sækja erlendar ráðstefnur.
•    Sameiginlegt doktorsnám. Ef doktorsnám er skipulagt sameiginlega með öðrum háskóla skal gerður um það sérstakur samningur og þess gætt að námið uppfylli sambærilegar gæða- og námskröfur og gerðar eru við Háskóla Íslands og að ábyrgð á gæðum námsins sé skýr.
•    Almenn færni. Doktorsnám skal stuðla að því að nemendur öðlist, auk sérhæfðrar fræðilegrar þekkingar, almenna og hagnýta þekkingu, s.s. á sviði siðfræði vísinda, aðferðafræði vísinda, gerðar styrkumsókna, hagnýtingar hugverka, kynningar vísindalegra niðurstaðna sinna fyrir sérfræðingum og almenningi, og öðlist þá félagslegu færni sem þeir þurfa að búa yfir í framtíðarstarfi.
•    Leiðbeining og ráðgjöf. Leiðbeinendur skulu stuðla að góðu og uppbyggilegu samstarfi við nemendur sína, enda er gagnkvæmt traust á milli leiðbeinanda og doktorsnema lykill að árangursríku doktorsnámi. Leiðbeinendur skulu ekki aðeins veita nemendum sínum faglega ráðgjöf heldur jafnframt leitast við að aðstoða þá við öflun styrkja til fjármögnunar námsins og við að öðlast þá almennu færni sem getið er um hér að framan. Leiðbeinandi skal að jafnaði ekki leiðbeina fleirum en fjórum doktorsnemum á hverjum tíma.
•    Siðareglur. Allir aðilar sem koma að doktorsnámi við Háskóla Íslands skulu hafa í heiðri ákvæði siðareglna Háskóla Íslands og eftir því sem við á ákvæði reglna Vísindasiðanefndar Háskóla Íslands, Vísindasiðanefndar (ríkisins) og vísindasiðanefndar Landspítala.
•    Fjarlægð og hlutlægni. Í þeim tilvikum þegar akademískur starfsmaður er í doktorsnámi við Háskóla Íslands skal tryggja fjarlægð og hlutlægni eins og kostur er, s.s. með því að meðleiðbeinandi og/eða meirihluti doktorsnefndar sé utan Háskóla Íslands og/eða að námið fari fram í samstarfi við erlendan háskóla. Allir aðilar sem koma að doktorsnámi við Háskóla Íslands skulu hafa í heiðri almennar hæfisreglur stjórnsýslulaga.
•    Kennsla. Doktorsnemum skal eftir atvikum boðið upp á að annast kennslu og verkefni sem tengjast doktorsnáminu. Þess skal þó gætt að vinnuálag sé innan hóflegra marka og tefji ekki eðlilega framvindu námsins. Miða skal við að slík kennsla og verkefni doktorsnema sem ekki eru starfsmenn Háskóla Íslands með kennsluskyldu sé ekki meiri en sem nemur 20% af heilu starfi.
•    Doktorsritgerð. Doktorsritgerð skal vera afrakstur 3–4 ára sjálfstæðrar rannsóknavinnu sem stenst alþjóðlegan samanburð. Nánar er kveðið á um kröfur til doktorsritgerðar í reglum fræðasviða um doktorsnám og doktorspróf.
•    Doktorsvörn. Doktorsritgerðir skulu varðar opinberlega. Ritgerðirnar skulu kynntar rækilega, birtar og gerðar aðgengilegar skv. reglum sem um það gilda.
•    Handbók fyrir doktorsnema. Miðstöð framhaldsnáms gefur út og birtir á vefsíðu sinni handbók fyrir doktorsnema með ítarlegum upplýsingum og leiðbeiningum um doktorsnám við Háskóla Íslands.
4.2 Faglegar kröfur til leiðbeinenda í doktorsnámi
Leiðbeinandi skal að jafnaði
•    hafa lokið doktorsprófi eða jafngildi þess á viðkomandi fagsviði. Hæfnisdómur fyrir starf prófessors getur komið í stað doktorsprófs,
•    vera viðurkenndur og virkur sérfræðingur á viðkomandi fagsviði,
•    vera í virkum tengslum við innlent og alþjóðlegt vísindasamfélag og kynna það fyrir nemendum sínum,
•    hafa birt ritsmíðar sem m.a. tengjast verkefni nemanda, á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur,
•    hafa sýnt fram á ritvirkni, mælda í rannsóknastigum skv. matskerfi opinberra háskóla, sem nemur a.m.k. 15 rannsóknastigum á ári úr tilteknum flokkum matkerfisins (svonefndum aflstigum) eða sem nemur 30 heildarrannsóknastigum að meðaltali sl. 3 ár. Stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms er heimilt að víkja frá þessari kröfu þegar sérstaklega stendur á ,
•    hafa reynslu af leiðsögn í doktorsnámi, t.d. með setu í doktorsnefndum, eða umtalsverða reynslu af leiðbeiningu í rannsóknatengdu meistaranámi,
•    hafa umtalsverða reynslu af öflun sértekna frá viðurkenndum rannsóknasjóðum,
•    hafa umtalsverða reynslu af rannsóknasamstarfi með alþjóðlega viðurkenndum sérfræðingum á viðkomandi fagsviði utan Háskóla Íslands.
Miðstöð framhaldsnáms veitir leiðbeinendum upplýsingar um skyldur, réttindi og hlutverk þeirra og gengst fyrir fræðslu og þjálfun fyrir nýja og verðandi leiðbeinendur.
4.3 Faglegar kröfur til doktorsnefnda og andmælenda
•    Þeir sem sitja í doktorsnefndum eða eru andmælendur skulu hafa doktorspróf eða jafngildi þess. Hæfnisdómur fyrir starf prófessors getur komið í stað doktorsprófs. Æskilegt er að þeir uppfylli að auki aðrar kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda í doktorsnámi.
•    Í doktorsnefnd skal a.m.k. einn fulltrúi vera utanaðkomandi, þ.e. ekki vera akademískur starfsmaður í viðkomandi deild.
•    Til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur skulu aðilar sem leggja mat á doktorsverkefni, s.s. doktorsnefnd og andmælendur, ekki vera tengdir viðkomandi doktorsnema.
4.4 Efnislegar kröfur til fræðasviða, deilda og þverfræðilegra námsleiða í doktorsnámi
•    Doktorsnemum skal boðið upp á rannsóknar- og vinnuaðstöðu sem er fullnægjandi fyrir verkefni þeirra.
•    Doktorsnemum skal tryggður reglulegur aðgangur að leiðbeinendum.
•    Doktorsnám skal, eftir því sem við á, vera í tengslum við erlendan háskóla, t.d. þannig að neminn taki hluta námsins við hann eða fulltrúi hans sitji í doktorsnefndinni.
•    Doktorsnemar skulu eiga þess kost að sitja vísindaráðstefnur og kynna verkefni sín þar.
•    Doktorsnemum skulu standa til boða reglubundnar málstofur og skipulegur vettvangur fyrir umræðu og kynningu á verkefnum sínum.
5. Kvörtunarferli fyrir doktorsnema
Doktorsnemi getur beint erindi til Miðstöðvar framhaldsnáms telji hann að viðkomandi fræðasvið, deild eða námsleið fullnægi ekki þessum viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands. Að öðru leyti gilda um doktorsnema ákvæði 50. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 um ferli kvartana og kærumála nemenda og ákvæði 51. gr. um réttindi og skyldur nemenda og agaviðurlög.
6. Endurskoðun
Gæðanefnd háskólaráðs og stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms fjalla reglulega um þessi viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands. Endurskoða skal viðmiðin og kröfurnar eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þeirra.
 
Viðauki 1 – Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sbr. 67. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands. Hlutverk miðstöðvarinnar er að tryggja og efla gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands og stuðla að viðgangi þess í samræmi við ákvarðanir háskólaráðs. Miðstöð framhaldsnáms hefur heildaryfirsýn yfir doktorsnámið og starfar náið með fræðasviðum og deildum, gæðanefnd háskólaráðs og sameiginlegri stjórnsýslu. Miðstöðin er þannig vettvangur samráðs og samvinnu um námið innan háskólans og tengiliður við samstarfsaðila innan lands og utan. Heimilt er að veita öðrum háskólum aðild að miðstöðinni enda uppfylli þeir fagleg skilyrði til þess að standa fyrir doktorsnámi í viðkomandi fræðigrein að hluta eða öllu leyti, samkvæmt mati stjórnar miðstöðvarinnar, og að fengnu samþykki háskólaráða Háskóla Íslands og aðildarháskólans.
Hlutverk sitt rækir Miðstöð framhaldsnáms m.a. með því að:
a.    hvetja til aukinna gæða og þjóna vexti og viðgangi framhaldsnámsins í hvívetna, einkum doktorsnáms,
b.    fylgja eftir sameiginlegum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms, fylgjast með því að starfandi námsleiðir í rannsóknatengdu framhaldsnámi séu í samræmi við gildandi viðmið og kröfur, að framboð námskeiða sé fullnægjandi og staðfesta lýsingar deilda á nýjum námsleiðum í framhaldsnámi,
c.    hafa eftirlit með því að deildir fylgi almennum reglum um inntökukröfur og inntökuferli fyrir doktorsnema, námsframvindu og dagsetningar sem standast verður til að nemendur geti lokið framhaldsnámi, m.a. með því að staðfesta námssamning og árlega námsframvinduskýrslu doktorsnema,
d.    fylgjast með því að nemendur í framhaldsnámi séu ávallt skráðir við háskólann á meðan á námi stendur, annast skráningu niðurstaðna deilda vegna umsókna um framhaldsnám, námsáætlana fyrir rannsóknatengt meistaranám og breytinga á þeim og skrá og staðfesta námsáætlanir fyrir doktorsnám og breytingar á þeim,
e.    sannreyna hvort leiðbeinendur í framhaldsnámi uppfylli sett viðmið og kröfur og viðurkenna þá sem aðila að miðstöðinni,
f.    staðfesta tillögur fræðasviða um andmælendur við doktorsvörn,
g.    vera vettvangur samráðs og samvinnu um framhaldsnám innan skólans og um kröfur til framhaldsnema og leiðbeinenda,
h.    stuðla í senn að samhæfingu og fjölbreytni framhaldsnámsins við háskólann og fylgjast náið með þróun framhaldsnáms á alþjóðlegum vettvangi og beita sér fyrir því að framhaldsnám við háskólann sé ávallt í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar gæðakröfur,
i.    hvetja til alþjóðlegs samstarfs og samvinnu við erlenda háskóla, m.a. varðandi sameiginlegar prófgráður (e. joint degrees), og halda utan um sértæka samstarfssamninga um framhaldsnám og sameiginlegar prófgráður,
j.    efla skilning á hagsmunum framhaldsnáms og framhaldsnema,
k.    halda saman, greina og miðla gögnum og upplýsingum um alla helstu þætti framhaldsnáms við háskólann, þ.m.t. styrki og staðtölur um námið á íslensku og ensku, og gera eftir atvikum tillögur til háskólaráðs um reglur og/eða viðmið sem stuðla að gæðum þess,
l.    annast í samráði við deildir og kennslusvið umsýslu við kennsluskrá framhaldsnáms við háskólann og
m.    gangast fyrir fræðslu, ráðstefnum, umræðufundum og fyrirlestrum um efni sem varða hlutverk og markmið miðstöðvarinnar, framhaldsnám almennt og vísindastörf við háskólann.
 
Viðauki 2. Viðmið um lærdóm við lok doktorsnáms, sbr. auglýsingu mennta- og menningarmálaráðherra um viðmið um æðri menntun og prófgráður nr. 530/2011.
Doktorspróf, stig 3, 180–240 ECTS 

Inntökuskilyrði eru meistarapróf af stigi 2.1 eða 2.2 eða sambærilegt próf. Skólar eða deildir geta krafist ákveðinnar lágmarkseinkunnar og sett sérstakar reglur um inntöku og hæfi nemenda.
Þekking: 
Við útskrift býr nemandi yfir sérfræðiþekkingu innan fræðigreinar. 
Í því felst að nemandi:
•    búi yfir yfirgripsmiklum og ítarlegum skilningi á helstu kenningum, grundvallaratriðum, hugtökum og nýjustu þekkingu sem völ er á
•    hafi haft frumkvæði að sköpun nýrrar þekkingar og túlkun hennar með rannsóknum eða annarri viðurkenndri fræðimennsku sem stenst skoðun og rýni fræðimanna
•    hafi lagt til mikilvægar nýjungar í formi nýrrar þekkingar, frumlegrar nýtingar eða túlkunar á þeirri þekkingu sem fyrir er
•    sýni að hann hafi þekkingu á siðfræði vísinda og hafi tekið íhugaða afstöðu til eigin rannsókna og annarra út frá eigin siðviti.
Leikni: 
Við útskrift getur nemandi beitt sérhæfðum aðferðum og verklagi á sérsviði fræðigreinar. 
Í því felst að nemandi:
•    geti skipulagt og framkvæmt viðamiklar rannsóknir sem útvíkka og/eða endurskilgreina gildandi aðferðafræði fræðigreinar
•    geti kannað eða þróað verkefni sem taka á nýjum vandamálum og viðfangsefnum fræðigreinar
•    hafi á hraðbergi grundvallarfærni, tækni, aðferðir, efni og heimildir sem tengjast viðkomandi fræðigrein
•    geti beitt gagnrýnni greiningu, mati og samþættingu við ný og flókin verkefni
•    geti hagnýtt almenn og sérhæfð tæki til rannsókna og rannsóknartækni
•    geti notað hugbúnað til að styðja við og bæta starf í viðkomandi fræðigrein
•    geti tiltekið sérhæfðan hugbúnað til endurbóta á aðferðum og vinnulagi
•    geti metið tölulegar og myndrænar upplýsingar á gagnrýninn hátt
•    hafi beitt nýstárlegum rannsóknum eða þróað vinnuaðferðir sem bæta við eða víkka út gildandi þekkingarsvið viðkomandi fræðigreinar
•    sýni frumleika í þróun og hagnýtingu nýrrar þekkingar, skilnings og aðferða
•    hafi tileinkað sér gagnrýna afstöðu til þekkingar og hafi kynnt fræðiritgerð sem er birtingarhæf í ritrýndri útgáfu innanlands eða á alþjóðavettvangi. 

Hæfni: 
Við útskrift geti nemandi hagnýtt þekkingu sína og leikni í starfi og/eða frekara námi. Í því felst að nemandi:
•    geti tekið fulla ábyrgð á eigin verkefnum og á vinnu annarra
•    geti sýnt sjálfstæði og frumkvæði í faglegri og fræðilegri vinnu
•    geti á árangursríkan hátt sagt jafningjum, öðrum fræðimönnum og almenningi frá sérfræðisviði sínu
•    geti tekið þátt í gagnrýnum samræðum, átt frumkvæði að og leitt fræðileg samskipti.
 
Viðauki 3. Efnisyfirlit samnings um doktorsnám
Doktorsnemi, leiðbeinandi og [deild, fræðasvið, Háskóli Íslands?] gera í upphafi náms með sér skriflegan samning sem kveður á um gagnkvæmar skyldur og réttindi doktorsnema, leiðbeinanda, doktorsnefndar og Miðstöðvar framhaldsnáms f.h. Háskóla Íslands. Í námssamningnum skal m.a. kveðið á um eftirtalin atriði:

1.    Heiti og stutta lýsingu doktorsverkefnis.
2.    Áætlun um fjármögnun námsins og námstíma.
3.    Samskipti leiðbeinanda og doktorsnema, þ.e. skuldbindingu leiðbeinanda til að veita doktorsnema leiðbeiningu og aðra aðstoð eftir því sem við á og skuldbindingu doktorsnema til að sinna náminu af kostgæfni, í samræmi við ákvæði þessara viðmiða.
4.    Aðstöðu til náms, þ.e. eftir því sem við á skuldbindingu stofnunarinnar til að veita doktorsnema viðunandi starfsaðstöðu, tryggja öryggi, velferð og heilbrigði doktorsnema og veita honum aðra aðstoð, s.s. við fjármögnun námsins, og skuldbindingu doktorsnema til að hlíta vinnureglum stofnunar og fyrirmælum laga og reglna, s.s. um öryggismál, trúnað o.fl.
5.    Birtingarrétt, þ.e. eftir því sem við á skil á frumgögnum að loknu námi, skil á handriti að vísindagrein(um) í ritrýnt vísindatímarit, heimild til birtingar doktorsritgerðar, höfundaraðild o.s.frv.

Viðauki 4. Efnisyfirlit árlegrar námsframvinduskýrslu doktorsnema
Doktorsnemi skilar í upphafi hvers ár til viðkomandi deildar/fræðasviðs námsframvinduskýrslu í samræmdu formi sem staðfest er af leiðbeinanda. Deildir/fræðasvið skila afriti af skýrslunni til Miðstöðvar framhaldsnáms fyrir 1. febrúar. Í námsframvinduskýrslunni skulu koma fram eftirtalin atriði:

1.    Nafn og fæðingardagur doktorsnema.
2.    Upphaf doktorsnáms skv. námssamningi.
3.    Nafn leiðbeinanda.
4.    Heiti og stutt lýsing doktorsverkefnis.
5.    Fjöldi eininga (ECTS) sem lokið var á undangengnu ári og heildarfjöldi lokinna eininga frá upphafi náms.
6.    Stutt greinargerð fyrir fundum með leiðbeinanda á undangengnu ári, s.s. um fjölda funda, gögnum sem lágu fyrir fundum, teknum ákvörðunum o.s.frv.
7.    Stutt greinargerð fyrir framvindu doktorsverkefnisins á undangengnu ári.
8.    Birt rit- og/eða hugverk undangengins árs.
9.    Þátttaka í málstofu doktorsnema á undangengnu ári.
10.    Þátttaka í innlendum og/eða erlendum ráðstefnum á undangengnu ári.
11.    Kennslustörfum á undangengnu ári.
12.    Stöðu og horfum varðandi fjármögnun námsins.
13.    Námsaðstöðu.
14.    Áætluðum námslokum.
15.    Öðru sem doktorsnemi vill koma á framfæri.