Lífsstíll 7-9 ára barna

6.jpg

Pistlar


 28. apríl 2008

Útivera

Lífsstíll barna með tilliti til útiveru hefur breyst gríðarlega mikið á stuttum tíma. Börn eru minna úti í dag en þau voru fyrir nokkrum árum. Þetta sést best á því að þegar ég var barn fyrir örfáum árum og hagaði mér ekki eins og ætlast var til var mér bannað að fara út, ég var settur í útivistarbann. Í dag hefur þetta breyst, það felst engin refsing í því að banna barni að fara út. Það virkar betur að stytta sjónvarps- og tölvutímann.

Útivera hefur heilmikla hreyfingu í för með sér og það að „fara út að leika” getur vel fullnægt hreyfiþörf barna.

nánar...

Vandamálið er að það eru ekki öll börn sem kunna að leika sér úti. Nú gæti einhver hugsað, hvað er það að kunna? Það þarf ekkert að kunna að leika sér úti! En hver kannast ekki við svarið, eftir að hafa hvatt barnið sitt til að fara út: „Það er ekkert að gera úti”?

Staðreyndin er sú að við mannfólkið myndum ekki einungis tengsl hvert við annað. Við getum myndað tengsl við dýr, plöntur, dauða hluti og staði. Þannig getur umhverfið og náttúran skipað stóran sess í lífi fólks. Þegar ég segi að börn kunni ekki að leika sér úti á ég við að þau hafi ekki myndað tengsl við náttúruna og nánasta umhverfi. Ef tengslin eru ekki til staðar finna börnin enga þörf hjá sér til að fara út. Ef þau fara aldrei út vita þau ekki hvað þau eiga að gera loksins þegar þau eru komin þangað. Það er á okkar ábyrgð, foreldra, kennara og annara uppalenda, að börnin myndi tengsl við umhverfi sitt. Það er ekkert flókið, við þurfum bara að vera dugleg að fara út með þeim. Aðalatriðið er að það sé gaman en ekki leiðinleg kvöð.

Einhverjir grunnskólar hafa tekið upp svokallaða útikennslu sem er mjög gott mál. Börnin læra þá að þekkja sitt nánasta umhverfi og hvað það hefur upp á að bjóða. En betur má ef duga skal, foreldrar ættu einnig að hvetja börn sín til aukinnar útiveru. Hvernig væri að rifja upp einn leik sem þú varst mikið í þegar þú varst barn og kenna þínu barni og vinum þess? Hver veit nema það verði skemmtilegra að fara út að leika með vinunum heldur en að sitja inni í tölvunni eftir það.

Um daginn tók ég þátt í að bæta við þá frábæru útikennsluaðstöðu sem fyrir var á Laugarvatni. Stuttu síðar ákvað ein móðirin að halda afmæli sjö ára sonar síns úti á þessu sama svæði. Sagan segir að börnin hafi sjaldan skemmt sér eins vel í afmælisveislu. Hver veit nema róluvellir landsins verði vinsælir afmælisveislustaðir innan skamms.

Drífum okkur út að leika!

Smári Stefánsson, aðjúnkt í útivist

 

18. apríl 2008

Drykkir

Vatn er okkur lífsnauðsynlegt og við erum svo heppin hér á Íslandi að eiga nóg af því. Börn ættu að fá um 1 lítra af vökva (helst vatni) á dag, auk þess vökva sem þau fá úr fæðunni, en þetta er aðeins viðmiðunargildi þar sem vökvaþörf er mjög mismunandi. Vökvaþörfin eykst t.d. þegar við hreyfum okkur mikið. Rannsóknir hafa sýnt að drykkir veita minni seddutilfinningu en föst fæða, jafnvel þó þeir séu orkuríkir. Orka í vökva, sérstaklega sykurríkum vökva, virðist ekki hafa eins mikið að segja í stjórnun á orkuinntöku eins og orka í föstu fæði. Því er hætt við að orkuinntaka verði meiri en orkunotkun og orkujafnvægið raskist, ef stór hluti orkuinntöku er á vökvaformi. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að mælt er með því að drekka vatn frekar en aðra drykki.

nánar...

Mjólk er næringarríkur drykkur og löng hefð fyrir því hérlendis að nota mjólk og mjólkurvörur. Mjólkin er góður próteingjafi og kalkgjafi. Auk þess eru í henni fleiri næringarefni, t.d. B2- og B12-vítamín. Ráðlagt er að drekka tvö glös af mjólk á dag eða samsvarandi af öðrum mjólkurmat eða sem samsvarar hálfum lítra á dag en meira magn er ekki æskilegt. Mjólkin er misjafnlega orkurík eftir því hversu mikil fita er í henni og ætti að velja mjólkurvörur eftir næringarþörf hvers og eins. Best er að velja ósykraðar mjólkurvörur. Einnig er gott að hafa í huga að ostur getur komið í stað mjólkurvara sem kalkgjafi að hluta til, þrjár sneiðar af osti jafngilda einu glasi af mjólk.

Hreinir ávaxtasafar innihalda mörg næringarefnin úr ávöxtunum sem safinn er úr en í safanum er tiltölulega lítið af trefjum og öðrum hollefnum sem eru í ferskum ávöxtum. Ávaxtasafar eru ekki eins hollir og ávextir og engin sérstök ástæða til að drekka ávaxtasafa, frekar ætti að borða ávextina eins og þeir eru. Ávaxtasafar eru orkuríkir, það þarf t.d. 2 ½ appelsínu í eitt glas af appelsínusafa. Hér skiptir magnið líka máli, eitt lítið glas á dag er í lagi en heill lítri á dag er of mikið af því góða. Einnig er hægt að blanda ávaxtasöfum við vatn til tilbreytingar.

Drykkir með sætuefnum eru orkulitlir en niðurstöður nýlegra rannsókna virðast benda til þess að hið mikla sætabragð af þessum drykkjum eigi þátt í að auka sækni í eitthvað sem er sætt. Síst er mælt með sykruðum drykkjum (gosdrykkjum og sykruðum djús). Þessir drykkir hafa verið tengdir tannskemmdum, aukinni orkuinntöku, þyngdaraukningu og sykursýki af gerð 2. Vegna mögulegra áhrifa koffeins á taugakerfið sem er að þroskast er ekki ráðlagt að gefa börnum koffeinríka drykki eins og kaffi, kók eða pepsí. Í ½ lítra af kók eða pepsí er álíka mikið magn af koffeini og í 6-8 bollum af kaffi.

Vatn að vild, mjólk í hófi, ávaxtasafa til tilbreytingar og sykraða drykki sem sjaldnast.

 7. mars 2008

Aldrei á Íslandi

Ég las grein eftir amerískan lækni um daginn þar sem hann sagði frá því að hann hefði fengið heila fjölskyldu á lækningastofuna, foreldra og fimm börn. Annað foreldrið var of þungt en hitt of feitt og öll börnin voru of feit. Börnin voru komin með sjúkdóma tengda þyngd sinni. Eitt barnanna var með háan blóðþýsting, annað með fitulifur, tvö með stoðkerfisvandamál, þrjú sýndu merki um byrjandi sykursýki og tvö höfðu brjóstsviða sem talinn var tengjast líkamsþyngd. Öll höfðu þau andlegar áhyggjur vegna þyngdar sinnar.

nánar...

Ég hugsaði strax að sem betur fer gæti þetta ekki gerst á Íslandi. Fljótlega áttaði ég mig þó á því að tíðni ofþyngdar á Íslandi hefur farið vaxandi og ef við spyrnum ekki við fótum getur þetta hæglega átt sér stað hér.

Í Ameríku er búið að reikna út að um miðja öldina muni offita valda því að meðallífslíkur lækki um 2-5 ár. Þetta er svipuð lækkun á meðalaldri og allir krabbameinssjúkdómar valda samanlagt.

Þjóðfélagið hefur breyst og margt veldur því að við hreyfum okkur minna en við gerðum áður. Það hefur t.d. verið reiknað út að bara það að við þurfum ekki lengur að ganga í símann og höfum fjarstýringar til að kveikja og slökkva á sjónvarpi spari okkur sem nemur orku í rúmu grammi af fitu á degi hverjum. Nú er einn þúsundasti úr kílói ekki mikið en tíminn er fljótur að líða og á 25 árum erum við búin að safna á okkur u.þ.b. 10 kg vegna þessa. Sjaldgæft er orðið að við göngum út í búð til að kaupa í matinn enda er kaupmaðurinn á horninu orðinn mun óalgengri en áður. Fáir ganga út að strætóskýli þar sem bíllinn er orðinn allsráðandi sem ferðamáti. Þessar breytingar þurfa ekki að vera neikvæðar en valda því að við þurfum að hugsa um að fá þá hreyfingu sem öllum er æskileg. Hún kemur ekki eins mikið af sjálfu sér og áður.

Ég minntist á að lítil breyting eins og að sleppa því ganga í símann og slökkva á viðtækjum getur haft talsverð neikvæð áhrif á löngum tíma. Þessu má sem betur fer snúa við og ef við venjum okkur á meiri hreyfingu þar sem færi gefst á getur það að sama skapi haft jákvæðar breytingarí för með sér. Sem dæmi má nefna að ganga upp og niður stiga í stað þess að taka lyftu eða rafmagnsstiga, leggja bílnum hjá stórmörkuðum og annarsstaðar þannig að við þurfum að ganga nokkrum metrum lengra og svo mætti lengi telja. Þótt þetta komi að sjálfsögðu ekki í staðinn fyrir reglulega skipulagða hreyfingu geta slíkar minniháttar lífstílsbreytingar skipt verulgu máli, sérstaklega fyrir þá sem ekki stunda reglubundna hreyfingu.

Æ fleiri rannsóknir benda nú til að hollt matarræði og regluleg hreyfing stuðli að bættri líðan og minnki líkur á sjúkdómum þegar fram líða stundir. Sá sem er of þungur og stundar hollan lífsstíl er í minni hættu á að fá sjúkdóma en sá sem er grannur og hefur vanið sig á óhollan lífsstíl. Markmiðið er því í flestum tilfellum ekki að grennast heldur borða hollan mat og hreyfa sig reglulega. Ábyrgð okkar foreldra er mikil að veita krökkunum það uppeldi sem stuðlar að heilbrigði og minnkar líkur á lífstílssjúkdómum sem verða æ algengari. Rannsókn sú sem barnið þitt tekur þátt í hefur það eitt að markmiði að stuðla að bættum lífsstíl og þar með auka vellíðan og minnka líkur á sjúkdómum í framtiðinni. Ef vel tekst til fylgja vonandi aðrir í kjölfarið. Þetta minnkar þó ekki mikilvægi þess að við foreldrar séum ávallt vakandi fyrir því að börnin okkar fái kjarngott fæði og næga hreyfingu.

Gangi ykkur vel,
Hannes Hrafnkelsson heimilislæknir.

 3. mars 2008
Fiskur

Fiskur að minnsta kosti tvisvar í viku eða oftar

Það er ýmislegt við fiskinn sem gerir hann hollan. Það sama á mögulega við um fiskinn og með ávextina og grænmetið, að það sé samspil efnanna sem í honum eru sem eru okkur svo holl frekar en efnin hvert fyrir sig. Fiskur er próteinríkur, feitur fiskur er ríkur af omega-3 fitusýrum og í fiski eru ýmis önnur lífsnauðsynleg næringarefni eins og selen og joð svo eitthvað sé nefnt. Fiskur er helsti joðgjafi okkar Íslendinga og joð er nauðsynlegur hluti skjaldkirtilshormóna en þau hafa áhrif á efnaskiptahraða líkamans.

nánar...

Fiskur hefur verið hluti af fæðu okkar Íslendinga í gegnum aldirnar, bæði til sjávar og sveita, þó aðallega til sjávar. Nytjastofnar við Ísland eru margir, t.d. ýsa, þorskur, lúða, rauðspretta, steinbítur, karfi, langa og skötuselur og auk þess lax og silungur. Mikil og almenn fiskneysla var lengi vel eitt af megin einkennum á mataræði Íslendinga en hún hefur minnkað undanfarin ár. Þessari þróun þarf að snúa við. Minnkandi fiskneysla Íslendinga þýðir minni inntaka á hollefnum úr fiski, eins og joði.

Rannsóknarstofa í næringarfræði stýrði evrópskri rannsókn á áhrifum sjávarfangs á ungt of þungt fólk. Helstu niðurstöður þessarar rannsóknar voru þær að fólk sem fékk lax, þorsk eða lýsi átti auðveldara með að nálgast kjörþyngd heldur en fólkið í viðmiðunarhópnum sem ekki fékk neinn mat sem á uppruna sinn úr sjónum. Þríglýseríð og kólesteról í blóði lækkuðu meira hjá þeim sem fengu fisk eða lýsi en hjá viðmiðunarhópnum. Lýsi og feitur fiskur eins og lax innihalda omega-3 fitusýrur sem hafa góð áhrif á blóðfitu en magur fiskur eins og þorskurinn virðist líka hafa góð áhrif á blóðfituna.

Fiskur er vanalega í boði tvisvar í viku í skólanum en fiskur ætti líka að vera í boði heima, því fiskur er hollur fyrir alla fjölskylduna!

Ása og Inga

 21. febrúar 2008
Skíði og skautar

Fyrir nokkru töluðum við um hve stutt væri í útivistarsvæði fyrir okkur sem búum í Reykjavík og nágrenni. Það hefur ekkert breyst. Við eigum fullt af útivistarsvæðum sem mörg hver eru nær en ykkur grunar. Fyrir utan þau útivistarsvæði sem við höfum áður talað um langar mig að benda ykkur á nokkra möguleika í viðbót sem hægt er að nýta til hreyfistundar með fjölskyldunni eða jafnvel fyrir börnin að nýta með vinum sínum.

nánar...

Skautar
Á höfuðborgarsvæðinu eru tvö yfirbyggð skautasvell sem hægt er að nýta hvort sem veður er gott eða slæmt.

Skautahöllin í Laugardal er opin fyrir almenning á eftirfarandi tímum:
Mánudaga-miðvikudaga kl.12:00-15:00
Fimmtudaga kl.12:00-15:00 og 17:00-19:30
Föstudaga kl.13:00-20:00
Laugardaga og sunnudaga kl.13:00-18:00

http://www.skautahollin.is/

Egilshöllin
Skautasvellið í Egilshöll er opið á eftirfarandi tímum:
Mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga kl.13:00-15:00
Miðvikudaga kl.13:00-15:00 og 17:00-19:00
Föstudaga kl.13:00-21:00 (diskó kl. 17:00-21:00)
Laugardaga og sunnudaga kl.13:00-18:00

http://www.egilsholl.is/

Á báðum stöðum er hægt að fá leigða skauta, jafnt fyrir börn sem fullorðna, svo allir ættu að geta drifið sig af stað.

Skíði
Í nágrenni Reykjavíkur eigum við ágætis skíðasvæði. Á undanförnum árum hefur þó ekki verið opið þar marga daga ársins en inni á milli glæðist þó alltaf. Mönnum hættir oft til að ákveða að það sé ekki opið í fjöllunum sé lítill snjór hér á láglendinu í Reykjavík. Gott er að fara inn á heimasíðu skíðasvæðanna en þar eru upplýsingar um hvort opið sé og hvernig veður og færð er í fjallinu. Ég mæli því hiklaust með því að þið athugið málið ef þið eigið lausan tíma aflögu. Það tekur ekki svo langan tíma að keyra annað hvort upp í Bláfjöll eða Skálafell. Fyrir þau ykkur sem kjósið gönguskíðin frekar en svigskíðin eru gönguskíðabrautirnar mun oftar opnar en brekkurnar sjálfar.

http://www.skidasvaedi.is/

Einnig eigum við góð skíðasvæði lengra úti á landi og má þar nefna Hlíðarfjall á Akureyri, skíðasvæði á Sauðárkróki, Ísafirði, Siglufirði og Norðfirði svo eitthvað sé nefnt. Fínasta hugmynd fyrir helgarferð út á land er að kippa skíðunum með - eða bara leigja þau á staðnum.

Með von um aðeins meiri snjó handa okkur í vetur (að minnsta kosti í fjöllunum)
Katrín Heiða Jónsdóttir, íþróttafræðingur