Lífsstíll 7-9 ára barna

7.jpg

Velkomin á vef rannsóknarinnar Lífsstíll 7-9 ára barnaRannsóknin Lífsstíll 7-9 ára barna er samstarfsverkefni sem vísindamenn og framhaldsnemar við Menntavísindasvið og Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands unnu að á árunum 2006-2008. Verkefnið miðaði að því að auka heilbrigði barna og var unnið í samstarfi við Menntasvið Reykjavíkurborgar og sex grunnskóla í borginni. Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar í þættinum Hreyfing og hollusta – lykill að framtíð sem sýndur var í Sjónvarpinu þriðjudaginn 19. janúar sl.

Þátttökuskólunum var skipt í tvo flokka, þrjá íhlutunarskóla og þrjá samanburðarskóla. Leitast var við að auka daglega hreyfingu barna í íhlutunarskólunum, bæði innan og utan skóla, í samstarfi við kennara og foreldra. Þetta var gert með því að flétta hreyfingu og leikjum inn í kennslu hinna ýmsu námsgreina og með aukinni íþróttakennslu. Þá var leitast við að hafa áhrif á mataræði þeirra til aukinnar hollustu, m.a. með fræðslu og samvinnu við kennara, starfsfólk mötuneyta skólanna og foreldra og var þar fylgt markmiðum Lýðheilsustöðvar.

Í upphafi voru gerðar ýmsar mælingar á nemendum, s.s. á holdafari, þreki, hreyfingu, beinþéttni, mataræði og þáttum sem tengdust lífsstíl þeirra. Mælingarnar voru endurteknar í lok tímabilsins, auk þess sem hreyfimælingar voru gerðar á miðju tímabilinu.
 
Mælingar í lok tímabilsins leiddu í ljós að mataræði barna í íhlutunarskólunum hafði nálgast markmið Lýðheilsustöðvar mun meir en barna í samanburðarskólunum. Mikil aukning varð á grænmetis- og ávaxtaneyslu. Neysla barna í íhlutunarskólunum á grænmeti reyndist t.d. 50% meiri en í samanburðarskólunum Aukning á hreyfingu varð fyrst og fremst á skólatíma og þá einkum meðal drengja. Þá reyndist þol barna í íhlutunarskólunum 10% meira en í samanburðarskólum.