Atgervi ungra Íslendinga

5.jpg

Um rannsókninaTíðni ofþyngdar og offitu hefur aukist mjög á síðastliðnum tveimur áratugum og er, ásamt hreyfingarleysi og slæmu mataræði, tengd áhættu efnaskiptasjúkdóma. Þessi breytti lífsstíll hefur einnig neikvæð áhrif á félagslega þætti og andlega líðan fólks. Tilgangur rannsóknarinnar Atgervi ungra Íslendinga er að rannsaka langtíma- og aldurshópabreytingar á heilsutengdum þáttum eins og holdafari, hreyfingu, þreki, andlegri líðan, og félagslegum þáttum eins og félagslegri samheldni. Auk þess verða athuguð víxlverkun þessara breytinga á aðra áhættuþætti slakrar heilsu s.s. efnaskiptasjúkdóma Þetta verður rannsakað í tveimur hópum ungs fólks, unglingum (á 17. aldursári) og ungmennum (á 23. aldursári).

Þátttakenda verður leitað meðal þeirra sem tóku þátt í rannsókninni Lífsstíll 9 og 15 ára Íslendinga og framkvæmd var skólaárið 2003-2004. Öflun heilsufarsupplýsinga um þessa einstaklinga nú átta árum síðar geta gefið mjög dýrmæta vitneskju um t.a.m. hvort og til hvaða fyrirbyggjandi aðgerða heilbrigðis- og lýðheilsuyfirvöld þurfa að grípa til á komandi árum og áratugum.

Þetta verður í fyrsta sinn sem þróun og breytingar á umræddum heilsufarsþáttum verða skoðaðar samtímis í tveimur landsúrtökum á Íslandi.  Þannig mun rannsóknin afla upplýsinga um þær hugsanlegu breytingar á heilsufari tengdu hreyfingu, líkamlegu atgervi og andlegri líðan, sem hefur átt sér stað frá því sami hópur tók þátt í umræddri rannsókn árið 2003. Þessi rannsókn er einnig hluti af EYHS (European Youth Heart Study).

Framkvæmd og mælingar

Undirbúningur hefur staðið yfir síðan í byrjun ágúst 2010 og gagnasöfnun rannsóknarinnar fer fram frá ágúst 2011 og lýkur í janúar 2012. Fjölmargar mælingar sem tengjast heilsu og lífsstíl verða framkvæmdar s.s. þrjár mismunandi líkamssamsetningar- og holdafarsmælingar þar á meðal DXA-mæling sem segir til um beinþéttni, fitu- og vöðvahlutfall. Líkamlegt þol verður mælt með þrekprófi á hjóli, blóðþrýstingur og gildi mismunandi breyta í blóði verða mæld. Hreyfimælar verða notaðir til ákvarða hreyfimynstur og þátttakendur þurfa auk þess að svara spurningalista sem tengist félagslegum sem og andlegum þáttum.